Hvers vegna og hvernig á ég að endurvinna?

Hvers vegna að endurvinna?

Úrgangurinn er dýrmæt auðlind. Ýmsar náttúruauðlindir jarðar, t.d. skógar, jarðolía, jarðvegur og málmur eru notaðar til að framleiða þær vörur sem við kaupum og þær eru ekki óendanlegar. Þegar notuð vara er endurunnin er henni breytt í nýja vöru án þess að gengið sé á náttúruauðlindir. 

Úrgangur er því verðmætt hráefni sem með endurvinnslu kemur aftur inn í hringrás framleiðsluferilsins. Sem dæmi má nefna að þegar áldós fer á urðunarstað og er grafin þar í jörðu ásamt öðru sorpi er hún ekki lengur verðmætt hráefni, þar sem ekki er hægt að nýta álið í henni í nýja dós. 

Ávinningurinn af endurvinnslu

  • Nýtir hráefni og viðheldur hringrás efna í náttúrunni.
  • Dregur úr urðun og sparar þannig landsvæði.
  • Dregur úr ýmis konar umhverfismengun.
  • Orka sparast.
  • Ódýrara fyrir samfélagið að endurvinna en urða.
  • Gerir okkur meðvituð um eigin neyslu.
  • Minnir okkur á að við erum ábyrg fyrir umhverfi okkar.
  • Ferðum með ruslapokann út í tunnu fækkar.
  • Minna sorp - meiri verðmæti.

Hvernig á ég að byrja að endurvinna?

Það er í þínum höndum að ákveða hvaða úrgang þú ætlar að flokka og skila til endurvinnslu. Vel gæti reynst að byrja smátt en bæta svo smám saman við eftir því sem þú venst hugmyndinni. 

Kynntu þér móttöku- og safnstöðvarnar á vefjum sveitarfélaganna.

Nokkur fyrirtæki og sveitarfélög bjóða upp á flokkunartunnur fyrir endurvinnanlegan úrgang við heimahús. Þannig getur þú sparað þér sporin og látið sækja flokkaðan úrgang heim gegn vægu gjaldi. Skráðu hjá þér hvenær flokkunartunnurnar eru tæmdar í þínu sveitarfélagi. 

Flokkun þarf ekki að taka mikið pláss og hún þarf ekki að kosta neitt. Dagblöðum og öðrum pappír má safna í pappakassa. Gosflöskur má setja í poka eða pappakassa. Þeir sem vilja geta keypt flokkunarkassa úr plasti sem hægt er að stafla upp og einnig fást flokkunarílát undir eldhúsvask.

Endurvinnslan er í þínum höndum.