Spurt og svarað

 

Hvað er Úrvinnslusjóður?

Markmið laga um úrvinnslugjald er að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi förgun spilliefna.

 

 

Hlutverk

 • Úrvinnslusjóður sér um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess. Hann skal með hagrænum hvötum koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem er tilkominn vegna vara sem falla undir lög um Úrvinnslusjóð. Úrvinnslusjóður semur við aðila um úrvinnslu úrgangs á grundvelli verksamninga.

Stjórn Úrvinnslusjóðs

 • Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipar sjö manna stjórn Úrvinnslusjóðs til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann stjórnar en sex meðstjórnendur eru skipaðir að fenginni tilnefningu eftirfarandi aðila: einn samkvæmt tilnefningu Samtaka iðnaðarins, einn samkvæmt tilnefningu SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, einn samkvæmt tilnefningu Félags atvinnurekenda, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og tveir samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Tekjur

 • Úrvinnslugjald er lagt á vörur sem falla undir lög um úrvinnslugjald. Tollayfirvöld annast álagningu af gjaldskyldum vörum í innflutningi, ríkisskattstjóri annast álagningu vegna innlendrar gjaldskyldrar framleiðslu og álagningu úrvinnslugjalds af ökutækjum. Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu úrvinnslugjalds. Gjaldið er notað til að greiða fyrir meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöðvum, flutning, endurnýtingu, endurvinnslu eða förgun með eða án skilagjalds. Samið er um verkþætti á grundvelli útboða eða verksamninga.

Hvaða vörur falla undir Úrvinnslusjóð?

 • Olíuvörur, leysiefni, halógeneruð efnasambönd, ísósýanöt/pólýúretön, málning, prentlitir, rafhlöður, blýsýrurafgeymar, framköllunarvökvar, kvikasilfurvörur, varnarefni, kælimiðlar, hjólbarðar, pappaumbúðir, raftæki, plastumbúðir, aðrar en skilagjaldsumbúðir og heyrúlluplast, ökutæki.

Eru sambærilegir sjóðir starfandi í öðrum löndum?

 • Í Evrópu eru það oftast samtök framleiðenda sem sjá um framleiðendaábyrgð. Fyrirtæki eiga þá aðild að ákveðnum samtökum og greiða fyrir þær vörur sem þau setja á markað til viðeigandi samtaka.

 

 

 

 

Hver ákveður hvaða vörur bera úrvinnslugjald? 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra getur óskað eftir því að stjórn Úrvinnslusjóðs geri tillögur um álagningu á tilteknar vörur. Ennfremur getur stjórn sjóðsins komið með slíkar tillögur að eigin frumkvæði. Nýir vöruflokkar og breytingar á úrvinnslugjöldum kalla á breytingu á lögum um úrvinnslugjald. Alþingi samþykkir breytingar á lögum um úrvinnslugjald.

 

 

Hvernig eru gjöld ákvörðuð?

 • Fjárhæð úrvinnslugjalds tekur mið af áætlun um kostnað við úrvinnslu úrgangs.
 • Úrvinnslugjald vegna pappa-, pappírs- og plastumbúða auk raftækja tekur mið af ætlun um nauðsynlegt endurgjald til að ná tölulegum markmiðum um endurvinnslu og endurnýtingu, auk greiðslna fyrir flutning umbúðaúrgangs innanlands.
 • Vöruflokkar eru fjárhagslega sjálfstæðir. Þ.e.a.s. tekjum hvers vöruflokks (úrvinnslugjaldi) skal eingöngu varið til að mæta gjöldum vegna úrvinnslu úrgangs í þeim flokki (meðhöndlun, flutningur, endurvinnsla, förgun).

Hvers vegna er atvinnulífið með meirihluta í stjórn?

Nokkrir vöruflokkar falla undir ákvæði framleiðendaábyrgðar sem felur í sér ábyrgð innflytjenda og framleiðenda á að vara fái æskilega meðhöndlun að notkunartíma loknum. Eðli málsins samkvæmt hvílir sú framleiðendaábyrgð á atvinnulífinu en ekki opinberum aðilum, þ.e. ríki eða sveitarfélögum.

 

 

Hvað eru þjónustuaðilar og ráðstöfunaraðilar?

 • Þjónustuaðili er aðili sem hefur samning við Úrvinnslusjóð um úrvinnslu úrgangs skv. skil-málum þar um. Hann semur við söfnunar- og móttökustöðvar, sér um flutning úrgangs frá þeim, flokkar, (for)vinnur og ráðstafar síðan unnum úrgangi á viðurkenndan hátt í viðurkennda farvegi. Þjónustuaðilar geta líka þjónustað fyrirtæki og heimili og safnað þar úrgangi sem ber úrvinnslugjald.
 • Ráðstöfunaraðili tekur við úrgangi til endanlegrar ráðstöfunar samkvæmt skilgreiningu Úrvinnslusjóðs um hvern vöruflokk. Dæmi um ráðstöfunaraðila eru endurvinnslufyrirtæki, brennslustöðvar með eða án endurnýtingar, miðlari úrgangs eða urðunarstaður. Ráðstöfunar-aðilar skulu vera samþykktir af Úrvinnslusjóði.

Hvaða kröfur eru gerðar til þjónustuaðila?

Úrvinnslusjóður gerir staðlaða samninga við þjónustuaðila sem byggja á almennum skilmálum um viðkomandi vöruflokk. Í skilmálum koma fram kröfur sem gerðar eru til þjónustuaðila og verklýsingar.

 

 

Hver setur markmið um endurvinnslu, endurnýtingu o.s.frv.?

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra setur markmið um endurvinnslu og endurnýtingu með reglugerð. Markmið Íslands eru í samræmi við markmið í tilskipunum Evrópusambandsins.

 

 

Hvers vegna fer ákveðinn hluti af plasti í brennslu til orkuvinnslu?

Hluti plastumbúða er ekki endurvinnanlegur og endar í orkuvinnslu. Sem dæmi má nefna marglaga plastumbúðir, litlar filmur og mengaðar plastumbúðir. Með flokkuðu plasti berst oft annar úrgangur sem þarf að farga. Í samræmi við 7. gr. laga um meðhöndlun úrgangs er sá kostur að senda plast til orkuvinnslu (þ.e. endurnýtingar) betri en að því sé fargað, t.d. að það sé urðað með heimilisúrgangi.

 

 

Hvað hefur Úrvinnslusjóður gert til að meira plast fari til endurvinnslu?

Stjórn Úrvinnslusjóðs gerði breytingar á endurgjaldi til þjónustuaðila vegna plastumbúða árið 2020. Endurgjald vegna blandaðra plastumbúða frá heimilum er nú tvískipt. Annars vegar er greitt fyrir endurvinnslu eftir flokkun og hins vegar fyrir orkuvinnslu eftir flokkun. Endurgjald fyrir aðrar plastumbúðir var líka hækkað. Greiðslur vegna orkuvinnslu flokkaðra umbúða (ekki blandaðra) voru felldar niður. Breytingarnar eru til þess gerðar að stuðla að meiri endurvinnslu.

 

 

Á hvaða tíma hættir úrgangur að falla undir verksvið Úrvinnslusjóðs?

Úrvinnslusjóður eignast aldrei úrganginn. Þjónustuaðili eignast úrganginn þegar hann tekur við honum frá úrgangshafa, þ.e. íbúum, sveitarfélögum eða fyrirtækjum. Eignarhaldið færist síðan til ráðstöfunaraðila. Það má segja að úrgangurinn hætti að falla undir verksvið Úrvinnslusjóðs þegar ráðstöfunaraðili hefur staðfest móttöku hans.

 

Hvernig aflar sjóðurinn upplýsinga um erlenda aðila sem ráðstafa úrgangi til endurvinnslu og endurnýtingar?

Umsókn um ráðstöfunaraðila er skv. skilmálum um hvern vöruflokk og kveður á um atriði sem þurfa að liggja fyrir þ.m.t. starfsleyfi í því landi sem fyrirhugað er að senda til. Úrvinnslusjóður skoðar gögn sem fylgja umsókn og aflar sér upplýsinga um viðkomandi aðila. M.a. leitar sjóðurinn eftir upplýsingum frá erlendum samtökum, um framleiðendaábyrgð, sem annast sömu vöruflokka. Þjónustuaðilar geta óskað eftir því að ráðstöfunaraðili sé samþykktur af Úrvinnslusjóði. Úrvinnslusjóður getur einnig samþykkt ráðstöfunaraðila að þeirra ósk eða að eigin frumkvæði. Úrvinnslusjóður getur hafnað umsókn um ráðstöfunaraðila sem ekki telst uppfylla skilyrði. Þá getur sjóðurinn tekið ráðstöfunaraðila út úr kerfinu.

 

Getur sjóðurinn haft áhrif á val þjónustuaðila á ráðstöfunaraðilum erlendis?

Þjónustuaðilar geta valið á milli samþykktra ráðstöfunaraðila í hverjum vöruflokki.

 

Er hægt að semja sig frá úrvinnslugjaldi?

 • Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi samdi við Úrvinnslusjóð um ráðstafanir til að tryggja úrvinnslu úrgangs vegna veiðarfæra úr gerviefnum í samræmi við heimild í 3. mgr. 8. gr. laga um úrvinnslugjald.
 • Veiðarfæri úr gerviefnum eru þar með undanþegin úrvinnslugjaldi. 

 

Hefur sjóðurinn einhverjar valdheimildir eða eftirlitsúrræði? Ef ekki, hver fer með eftirlit með starfsemi fyrirtækja hér á landi?

Úrvinnslusjóður hefur engar valdheimildir en sjóðurinn gerir samninga við þjónustuaðila og hefur eftirlit með því að þeir séu uppfylltir. Starfsemi þjónustu- og ráðstöfunaraðila er starfsleyfisskyld og fellur í flestum tilvikum undir eftirlit Umhverfisstofnunar.

 

Hver er ábyrgðaraðili fyrir tölfræði um plast á Íslandi? 

Umhverfisstofnun er ábyrgðaraðili fyrir tölfræði um endurvinnslu og endurnýtingu plasts. Úrvinnslusjóður og Endurvinnslan hf. skila tölulegum gögnum um magn plastumbúða sem sett eru á markað og um endurvinnslu og endurnýtingu þeirra.

 

Hvað er endurgjald og flutningsjöfnun?

 • Greiðslur til þjónustuaðila eru annars vegar endurgjald fyrir ráðstöfun og hins vegar flutningsjöfnun.
 • Endurgjaldið endurspeglar kostnað þjónustuaðila við úrgang. Þar má nefna greiðslu til söfnunarstöðva, flutning innan svæðis, gámakostnað, nauðsynlega meðhöndlun hjá þjónustuaðila, flutning til ráðstöfunaraðila og mat á nauðsynlegum greiðslum (+/-) til ráðstöfunaraðila.
 • Flutningsjöfnun er til að jafna aðstöðu íbúa, sveitarfélaga og þjónustuaðila um allt land. Skilgreindir eru svokallaðir núllpunktar þar sem engin flutningsjöfnun er greidd fyrir úrgang. Núllpunktur er þar sem hægt er að koma úrgangi til ráðstöfunar, t.d. útskipunarhöfn. Þannig er t.d. engin flutningsjöfnun greidd á höfuðborgarsvæðinu. Þar fá þjónustuaðilar aðeins endurgjald fyrir ráðstöfun. Greitt er fyrir flutning frá upprunastað úrgangs, þ.e. þar sem honum er safnað, að næsta núllpunkti.
 • Flutningsgreiðslan endurspeglar kostnað við að ferma flutningatæki, flytja og afferma vegna flutninga innanlands. Aðrir kostnaðarliðir eru hluti af endurgjaldi enda er flutningsjöfnun ekki greidd fyrir alla staði á landinu.
 • Endurgjald og flutningsjöfnun eru greidd fyrir það magn úrgangs sem sent er til ráðstöfunaraðila þegar staðfesting frá honum liggur fyrir.