Verkefnaáætlun úrbótatillögur

Verkefnaáætlun tengd úrbótatillögum Ríkisendurskoðunar

Þann 29. ágúst 2022 birti Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt á Úrvinnslusjóði. Til grundvallar stjórnsýsluúttektinni lá beiðni Alþingis um skýrslu ríkisendurskoðanda frá
31. maí 2021,  https://www.althingi.is/altext/151/s/1528.html ,  í framangreindri þingsályktunartillögu er nánar gerð grein fyrir þeim þáttum sem Ríkisendurskoðun skyldi skoða.
Auk þeirra atriða sem fram komu í þingsályktuninni taldi Ríkisendurskoðun ástæðu til að skoða meðferð plastúrgangs sérstaklega. Þá taldi Ríkisendurskoðun rétt að kanna hvernig Úrvinnslusjóði miðar við að ná tölulegum markmiðum um söfnun og endurvinnslu eða endurnýtingu úrgangs.

Í skýrslunni er að finna tillögur og ábendingar til Úrvinnslusjóðs sem munu styrkja og efla starfsemi sjóðsins. Stjórn Úrvinnslusjóðs fagnar framkomnum ábendingum og athugasemdum í skýrslu Ríkisendurskoðunar og mun sjóðurinn að sjálfsögðu leggja sig fram að bregðast við þeim ábendingum sem fjallað er um í skýrslunni. Úrvinnslusjóður hefur yfirfarið ábendingar og athugasemdir Ríkisendurskoðunar og sett fram áætlun til úrbóta.
Styrking á starfsemi sjóðsins er þegar hafin. Vinna við þarfagreiningu er á lokastigi, lagður hefur verið grunnur að fjölgun starfsfólks, skýrari afmörkun verksviða og gerð og skráningu verkferla, þ.m.t. styrkingu á innra eftirliti. Unnið er að uppfærslu á skilmálum, hönnun á nýju mála- og tölvukerfi ásamt stafrænni þróun sem auka á gagnsæi í starfsemi sjóðsins. Úrvinnslusjóður mun leita til Skattsins um útfærslu á reglubundnu samráði um eftirlit með innheimtu úrvinnslugjalds ásamt endurskoðun tollskrárnúmera með tilliti til úrvinnslugjalda. Úrvinnslusjóður hefur þegar kallað eftir rekjanleikaskýrslum fyrir ráðstöfun tiltekinna vöruflokka þar sem úrgangurinn fer frá miðlara eða flokkunarfyrirtæki til þriðja aðila til endanlegrar ráðstöfunar. Þá hefur verið ákveðið að gera skriflega samninga við ráðstöfunaraðila varðandi rekjanleikaskýrslur auk skilyrða um endanlega ráðstöfun og stefnt að því að koma slíkum samningum á sem fyrst. Þessi vinna er nú þegar hafin fyrir plastúrgang og verða aðrir vöruflokkar teknir fyrir í framhaldinu.
Þessu til viðbótar hefur stjórn og starfsfólk Úrvinnslusjóðs unnið að undirbúningi vegna lagabreytinga til innleiðingar á hringrásarhagkerfinu sem taka gildi um næstu áramót.

Sjá verkefnaáætlun hér: