Pappa- og pappírsumbúðir

Úrvinnslugjald er lagt á umbúðir úr pappa og pappír sem fluttar eru til landsins eða framleiddar hér á landi. Gjaldinu er ætlað að standa straum af úrvinnslu umbúðanna eftir að þær eru orðnar að úrgangi. Sem dæmi um pappa- og pappírsumbúðir má nefna pappakassa, umbúðapappír, kassa utan um ýmsa matvöru (morgunkorn, kex o.fl.), bréfpoka og pappamál. Drykkjarfernur (til dæmis mjólkur- og safafernur) eru flokkaðar með pappa- og pappírsumbúðum hér á landi, líkt og víða tíðkast í Evrópu, og nemur magn þeirra um 2-3% þess heildarmagns pappa- og pappírsumbúðaúrgangs sem safnast á landinu og er flutt út til úrvinnslu.

 

Blandaður pappír - úrvinnsla 

Þegar pappa- og pappírsumbúðum hefur verið safnað er efnið pressað og baggað og flutt til endurvinnslufyrirtækja (svokallaðra ráðstöfunaraðila) í Evrópu, sem kaupa efnið til framleiðslu á nýjum pappír. Þar er efnið leyst upp í sérstökum pottum og trefjarnar úr pappírnum fangaðar, en pappírstrefjar er hægt að nota allt að 6-9 sinnum. Það hversu vel pappírinn leysist upp og hve mikið af trefjum er hægt að fanga úr þessum uppleysta massa veltur fyrst og fremst á því hversu lengi pappírinn liggur í lausninni. Eftir því sem tíminn er styttri, því meira af trefjum er hætt við að fylgi plasti, áli og öðrum efnum sem er fleytt frá áður en massinn fer í frekari úrvinnslu. Það sem fleytt er frá með þessum hætti fer í orkuendurnýtingu. Sú orka sem verður til við þessa nýtingu kemur í stað orku sem annars væri sótt í gas, olíu eða kol. Því má segja að lítið sem ekkert fari til spillis við úrvinnsluna. 

Úrvinnsla á fernum

Það er staðreynd að fernur eru erfiðar í endurvinnslu. Ástæða þess er sú að fernur eru samsettar úr fleiri efnum en bara pappír, í þeim er plast en einnig oft ál. Einungis fá endurvinnslufyrirtæki í Evrópu hafa sérhæft sig í að endurvinna fernur en afkastageta þeirra er takmörkuð. Til að hægt sé að fara þá leið þarf að vera búið að flokka fernurnar frá öðrum úrgangi og jafnvel flytja þær milli staða með tilheyrandi kolefnislosun. Hafa þarf í huga að þrátt fyrir að þessi sérhæfða leið sé farin þarf að sía álið og plastið frá pappamassanum. Þetta ál og plast er erfitt að endurvinna og getur endað í orkuendurnýtingu ef illa gengur að sundurgreina álið og plastið. Munurinn á þessari sérhæfðu leið og þeirri almennu liggur í tímalengdinni sem massinn liggur í upplausn, en lengri tími gerir kleift að fanga meira af trefjum en með almennu aðferðinni. Sérhæfð úrvinnsla ferna er orkufrekari aðferð en skilar hærra endurvinnsluhlutfalli á fernunni sjálfri. 

Pappa- og pappírsúrgangur er markaðsvara

Með endurvinnslu á pappír, þ.m.t. fernum, er verið að nota úrgang til að búa til vöru af skilgreindum gæðum, jafnvel þótt hluti af því hráefni sem kemur inn í endurvinnsluferlið nýtist ekki til pappírsframleiðslu. Í Evrópu byggja fyrirtæki viðskiptalíkan sitt á því að kaupa úrgang og breyta honum í hráefni, í samræmi við staðla sem eiga að tryggja ákveðin gæði efnis og auðvelda kaupendum að finna og kaupa það efni sem þeir þurfa í sína framleiðslu. Það er ljóst að ef pappa- og pappírsúrgangurinn sem seldur er frá Íslandi væri þannig samsettur að hann myndi skemma endurvinnsluferli þessara aðila, þá yrði ekki tekið við sendingum sem innihalda fernur. Hafa verður í huga að af heildarmagni þess sem fellur í þennan úrgangsflokk hér á landi eru fernur aðeins um 2-3%. Þeir endurvinnsluaðilar sem taka við úrganginum frá Íslandi hafa gefið þær upplýsingar að það sé í lagi að hlutfall ferna sé allt að 5% án þess að það hafi áhrif á endurvinnsluferlið. Hluti þjónustuaðila Úrvinnslusjóðs sendir blandaðan pappírsúrgang með fernum í slíka endurvinnslu og hefur gert um árabil. 

 

Endurvinnslumarkmið

Endurvinnsluhlutfall er reiknað út frá magni pappírs og pappa sem fer í trefjapottinn sem lýst var hér að ofan (Flokkaður pappír sem fer ekki í frekari vinnslu áður en hann fer í maukvinnsluferli/trefjapott). Allur flokkaður og baggaður umbúðaúrgangur úr pappa og pappír frá Íslandi fer því í endurvinnslu. Endurvinnsluhlutfall af þessum úrgangsstraumi er 95%. 

Skilmálar fyrir þjónustu- og ráðstöfunaraðila

Umsóknareyðublöð og samningsform

Skilagreinar og verðskrá