Spilliefni

Markmið með álagningu úrvinnslugjalds á spilliefni er að draga úr mengun af völdum tiltekinna spilliefna með því að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnýtingu eða förgun þeirra. Byggt er á mengunarbótareglunni sem felur í sér að sá sem mengar umhverfið eða spillir því greiði kostnað af aðgerðum þeim sem miða að því að koma í veg fyrir umhverfisskaða.

Úrvinnslugjald er lagt á tilteknar vörur við innflutning eða framleiðslu þeirra í landinu. Úrvinnslugjaldinu er ætlað að standa undir óhjákvæmilegum kostnaði við móttöku spilliefna, flutning þeirra frá söfnunarstöðvum til móttökustöðva, meðhöndlun þeirra og endurnýtingu eða eyðingu.

Fyrirtækjum og atvinnugreinum er heimilt að semja um ráðstafanir til að fyrirbyggja mengun af völdum spilliefna enda þjóni það markmiðum laganna. Viðkomandi vara verður þá undanþegin gjaldtöku.

Olíuvörur

Hinn 15. mars 1999 var byrjað að leggja spilliefnagjald á smurolíu. Á sama tíma tók gildi þjónustusamningur við olíufélögin þrjú, Skeljung, Olís og N1, þar sem þau taka að sér að sjá um og reka búnað til að taka á móti allri úrgangsolíu á landinu, flytja olíuna frá öllum helstu skilaaðilum, meðhöndla hana í móttökustöð og koma henni til endurnýtingar.

Undir þennan vöruflokk falla svartolía, smurolía, smurfeiti, ryðvarnarolía, aðrar þykkar olíur og blöndur, svo sem vökvakerfisolíur og íblöndunarefni fyrir smurolíur.

Úrvinnslugjald er lagt á hvert kg olíu.

Nánar um fjárhæðir í lögum um úrvinnslugjald

Skilun úrgangsolíu - hvert skal skila

Rafhlöður

Gerður er greinarmunur á rafhlöðum sem eru einnota og endurhlaðanlegum rafgeymum.

Rafhlöður og rafgeymar eru ýmist fluttir inn einir og sér eða sem hluti af raffangi.

Samkvæmt reglugerð nr. 946/1999 eru rafhlöður er flokkast sem spilliefni að notkun lokinni skilgreindar á eftirfarandi hátt:

  • Rafhlöður sem innihalda meira en 0,0005% kvikasilfurs (Hg) miðað við þyngd.
  • Rafhlöður sem innihalda meira en 0,025% kadmíums (Cd) miðað við þyngd.
  • Rafhlöður sem innihalda meira en 0,4% blýs (Pb) miðað við þyngd.

Þessum rafhlöðum má skipta í tvo flokka: annars vegar einnota rafhlöður og hins vegar endurhlaðanlega rafgeyma.

Spurningar og svör um rafhlöður

Úrvinnslugjald er ýmist lagt á hvert stykki eða hvert kg. 

Nánar um fjárhæðir í lögum um úrvinnslugjald 

Blýsýrurafgeymar

Í þessum flokki eru eingöngu endurhlaðanlegir blýsýrurafgeymar sem einkum eru ætlaðir til að gangsetja vélar eða til að drífa vélar og ökutæki.

Þeir eru ýmist fluttir til landsins stakir, með eða án sýru, eða sem fylgihlutir með ýmsum tækjum svo sem ökutækjum. Þar sem notaðir blýsýrurafgeymar skila sér ávallt með sýru er þyngd þeirra sem fluttir eru inn án sýru leiðrétt með því að margfalda hana með 1,4.

Á blýsýrurafgeyma er lagt úrvinnslugjald og er það reiknað með tvennum hætti.

Annars vegar sem tiltekin fjárhæð á hvert stykki þeirra vara sem flokkast undir tiltekin tollskrárnúmer en hins vegar fyrir hvert kílógramm rafgeymis sem er sérinnfluttur eða er hluti vöru sem flokkast tiltekin tollskrárnúmer.

Úrvinnslugjald er ýmist lagt á hvert stykki eða hvert kg.

Nánar um fjárhæðir í lögum um úrvinnslugjald 

Málning og litarefni

Í þessum vöruflokki er að finna málningu, litarefni og prentliti sem hafa það sameiginlegt að innihalda hættuleg efni, oftast lífræn leysiefni, sem gerir það að verkum að vöruafgangar flokkast sem spilliefni. 

Málning sem inniheldur lífræn leysiefni eða önnur hættuleg efni er nefnd olíumálning til aðgreiningar frá plastmálningu sem er vatnsþynnanleg eða inniheldur ekki hættuleg efni.

Úrvinnslugjald er lagt á hvert kg af málningu.

Prentlitir eru gerðir upp sérstaklega. Úrvinnslugjald er lagt á hvert kg af þeim.

Nánar um fjárhæðir í lögum um úrvinnslugjald

Önnur spilliefni

Framköllunarefni

Í þessum vöruflokki eru kemísk efni sem notuð eru í ljósmynda- og prentiðnaði. Þau tilheyra ýmsum efnaflokkum, s.s. framköllurum, festivökvum, bleikiefnum, vætiefnum o.fl. Þau hafa það sameiginlegt að vera notuð í leystu eða fljótandi formi og falla til sem slík eftir notkun. 

Úrvinnslugjald er lagt á hvert kg og er það mismunandi eftir styrk lausnarinnar.

Kvikasilfursvörur

Úrvinnslugjald er lagt á hreint kvikasilfur og silfurmalgam til tannfyllinga.

Kælimiðlar

Úrvinnslugjald er ákveðin upphæð á hvert kg kælimiðils.

Lífræn leysiefni

Undir þennan vöruflokk falla öll lífræn leysiefni sem verða að spilliefnum, innihalda halógena eða falla undir reglur um efni sem eyða ósonlaginu. Í flokknum er að finna kolvatnsefni, aldehýð og blöndur leysiefna. Auk þess falla kolvatnsefnin unnin úr jarðolíu undir þennan flokk, þ.m.t. lakkbensín (e. white spirit), en það er stærsta innflutningsefnið í vöruflokknum. 

Lífræn leysiefni, klórbundin efni og önnur efni

Lífræn leysiefni sem innihalda ekki halógena sé falla undir reglur um efni sem eyða ósonlaginu.

Halógeneruð efnasambönd

Halógeneruð efnasambönd eru lífræn leysiefni sem innihalda halógena og falla ekki undir reglur sem eyða ósonlaginu. Efnin er einkum notuð sem hreinsiefni í efnalaugum og til að leysa upp lakk og málningu.

Ísósýanöt og pólyúretön

Í þessum vöruflokki eru lífræn efnasambönd sem innihalda hvarfgjarna ísósýanat-hópa. Eftir fullkomið efnahvarf við pólýól eða aðra hvarfgjarna efnahópa er ísósýanatið óvirkt og telst úrgangur af því tagi ekki lengur til spilliefna.

Varnarefni

Undir þennan vöruflokk falla varnarefni sem einkum eru skordýra- og illgresiseyðandi ásamt fúavarnarefnum sem notuð eru til að gegnverja við.

Þetta eru efni til varnar gegn eða útrýmingar á skordýrum, nagdýrum, sveppum og illgresi, efni til að hrindra spírun og efni til að stjórna plöntuvexti, sótthreinsandi efni og áþekkar vörur í formi eða umbúðum til smásölu eða sem blöndur eða hlutir (t.d. brennisteinsunnin bönd, kveikir og kerti og flugnaveiðarar).

Úrvinnslugjald er lagt á hvert kg varnarefna.