Greiðslur vegna söfnunar á víðavangi

Tilkynning til sveitarfélaga um greiðslur vegna söfnunar á víðavangi

25. apr. 2023

Á stjórnarfundi Úrvinnslusjóðs sem haldinn var þann 14. apríl sl., var samþykkt fyrirkomulag greiðslna fyrir söfnun á víðavangi. Samþykkt var að greiddar yrðu 262 kr./kg fyrir einnota plastvörur sem bera úrvinnslugjald og Úrvinnslusjóði ber að greiða af vegna söfnunar á víðavangi sbr. 37. gr. h. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Rétt er að taka fram að söfnun á úrgangi úr ruslabiðum sem stjórnvöld hafa komið fyrir á almannafæri í því skyni að auðvelda fólki að losa sig við úrgang telst einnig vera söfnun á víðavangi.
Ekki er gerð krafa um að efni verði sérgreint frá öðru efni sem safnast á víðavangi heldur er gengið út frá því þeirri forsendu að hlutfall einnota plastvara af heildarsöfnun úrgangs sem safnast sé 5%.
Greiðslur eru bundnar við hreinsun á vegum sveitarfélaga og annarra opinberra aðila eða hreinsun sem gerð er í umboði þeirra.
Greitt er til sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila samkvæmt skilagreinum, þar sem fram kemur heildarþyngd þess efnis sem safnast hefur á víðavangi. Greiðsla miðast þá við að 5% þess efnis sem safnaðist beri úrvinnslugjald, dæmi: Í söfnun safnast 200 kg af efni og er þá greitt fyrir 10 kg eða 2.620,- kr., sjá nánar um skilagreinar á heimasíðu Úrvinnslusjóðs: https://www.urvinnslusjodur.is/fyrir-thjonustuadila/skilagreinar-og-verdskra

Greiðslur Úrvinnslusjóðs vegna efnis sem safnast á víðavangi nær til úrgangs frá eftirfarandi einnota plastvörum:

  • íláta, með eða án loks, sem ætluð eru undir matvæli til neyslu á sölustað eða annars staðar. Hér er um að ræða ílát undir mat sem er jafnan neytt beint úr viðkomandi íláti og er tilbúin til neyslu án frekari tilreiðslu, svo sem eldunar, suðu eða hitunar,
  • umbúða úr sveigjanlegu efni, sem ætlaðar eru til að vefja utan um matvæli sem neytt er beint úr viðkomandi umbúðum án frekari tilreiðslu,
  • drykkjaríláta að rúmmáli allt að þremur lítrum, þ.m.t. lok, en undanskilin eru drykkjarílát úr gleri eða málmi sem hafa lok úr plasti og skilagjaldskyldar umbúðir,
  • drykkjarmála með eða án loks,
  • burðarpoka úr plasti sem eru þynnri en 50 μm,
  • blautþurrka til heimilis- og einkanota,
  • loftbelgja og blaðra, að undanskildum loftbelgjum til nota í iðnaði eða annarri atvinnustarfsemi og ekki eru ætlaðir til dreifingar til neytenda,
  • tóbaksvara með síu og stakar síur fyrir tóbaksvörur 

Úrvinnslusjóður greiðir ekki fyrir söfnun a víðavangi fyrir aðrar plastvörur eða umbúðir en þær sem taldar eru upp sem einnota plastvörur hér að framan, jafnvel þó greitt hafi verið af þeim úrvinnslugjald.

Tengiliðir Úrvinnslusjóðs vegna söfnunar á víðavangi eru Gunnlaug Einarsdóttir og  Margrét Kjartansdóttir og veita þær nánari upplýsingar ef þörf er á.  gunnlaug@urvinnslusjodur.is  margret@urvinnslusjodur.is