Umbúðir

Almennt

Innflytjendum og framleiðendum ber að annast og/eða greiða fyrir endurnýtingu, endurvinnslu eða förgun (úrvinnslu) þeirra umbúða sem þeir setja á markað. Þetta eru skyldur sem Íslendingar hafa gengist undir með aðild að samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Kerfið byggist á því að álagt úrvinnslugjald standi undir úrvinnslu umbúða. Því gæti sparast nokkur kostnaður hjá fyrirtækjum sem nú þurfa að greiða fyrir gámaleigu, flutning og úrvinnslu umbúða. Álagningin er í samræmi við mengunarbótaregluna sem byggist á því að sá, sem mengar, ber kostnaðinn af menguninni. Úrvinnslugjald á að virka sem hvati til að minnka umbúðanotkun.

Greiðsluskylda

Úrvinnslugjald af innfluttum umbúðum og umbúðum, sem notaðar eru utan um innflutta vöru, er innheimt í tolli. Greiðsluskylda úrvinnslugjalds á umbúðum, sem framleiddar eru hér á landi, myndast við útgáfu reiknings við afhendingu á vöru og gjaldið verður innheimt hjá Skattinum á sama hátt og vörugjald. Hægt er undanþiggja eða fá endurgreitt úrvinnslugjald vegna útflutnings á umbúðum en nánar er fjallað um endurgreiðslu hér á eftir.

Innflytjendur

Meginreglan er sú að innflytjandi / framleiðandi gefi upp þyngd umbúða við tollskýrslugerð. Ef þyngd og tegund umbúða er ekki þekkt er hægt að grípa til reiknireglu sem er innbyggð í hugbúnaði til tollskýrslugerðar. Reiknireglurnar miða við að tiltekið sé við tollskýrslugerð hver er megin söluumbúð vörunnar. Megin söluumbúðirnar geta því verið pappírs- og pappaumbúðir, glerumbúðir, málmumbúðir (stál eða ál), viðarumbúðir og loks plastumbúðir. Þeir innflytjendur, sem eru notendur hugbúnaðar við tollskýrslugerð, hafa aðgang að uppfærðum hugbúnaði frá hugbúnaðarfyrirtæki sínu. Tollskýrslugerð á vef Skattstjóra hefur einnig verið uppfærð. Þeim, sem nýta sér eigin tollskýrslukerfi eða handfæra skýrslur, er bent á nánari upplýsingar á vef Skattsins . Í samsettum lögum og viðaukum er reiknireglan útfærð í viðauki XVIII. Umbúðum er skipt upp eftir söluumbúðum og flutningsumbúðum.
Nánar um útfærslu reiknireglna

Stöðluð fyrirspurn til erlendra birgja

Til þess að auðvelda innflytjendum að afla upplýsinga frá erlendum birgjum um þyngd umbúða hefur Úrvinnslusjóður samið staðlaða fyrirspurn og látið þýða á nokkur erlend tungumál. Þar er útskýrt hvaða upplýsinga er þörf og hvers vegna. Innflytjendur eru hvattir til þess að senda birgjum sínum bréf af þessu tagi til þess að hafa sem nákvæmastar upplýsingar um þyngd umbúða. Fyrirspurnir er að finna á dönsku , ensku , frönsku , spænsku og þýsku.

Framleiðendur umbúða

Innlendir framleiðendur umbúða skrá sig hjá Ríkisskattstjóra sem gjaldendur úrvinnslugjalds. Framleiðendur pappa-, pappírs-, gler, málm, viðar- og plastumbúða greiða úrvinnslugjald af umbúðum sem fara á innanlandsmarkað. Innheimta úrvinnslugjalds á umbúðir, sem seldar eru á innanlandsmarkað, fer fram með sama hætti og uppgjör vörugjalds og hefur sömu gjalddaga. Ekki er greitt úrvinnslugjald af umbúðum sem seldar eru til útflutnings en á reikningi þarf að koma fram að vara sé ætluð til útflutnings (sjá nánar í reglugerð). Tekið skal fram að kaupandi umbúða ber ábyrgð á að upplýsingar um notkun umbúða séu réttar.

Útflytjendur

Undanþága frá úrvinnslugjaldi vegna útflutnings.
Skilyrði fyrir undanþágu er að viðkomandi umbúðir verði sannanlega fluttar úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi. Dæmi um umbúðir, sem falla undir þessa reglu, eru umbúðir sem keyptar eru erlendis til að setja utan um íslenska framleiðsluvöru, t.d. fisk. Kaupandi umbúða staðfestir og ber ábyrgð á því að umbúðir keyptar án úrvinnslugjalds fari til útflutnings.
Fyrirséð er að talsvert magn gjaldskyldra umbúða úr pappír, pappa, gleri, málm og við og plasti verður flutt úr landi og kemur ekki til úrvinnslu hér.
Sækja þarf fyrir fram um heimild til undanþágu á greiðslu úrvinnslugjalds til Skattsins. Undanþágan nær til tollafgreiðslu á þeim hluta sendingar sem ljóst er að fer aftur úr landi og hægt er að staðfesta útflutning á ef um er beðið síðar. Sömu vöru kann því að vera skipt niður á tollskýrslu í þann hluta sem á að fara á innanlandsmarkað og þann hluta sem verður nýttur til útflutnings.

Eyðublað fyrir umsókn um undanþágu vegna útflutnings
  

Ekki þarf að sækja um heimild til niðurfellingar úrvinnslugjalds vegna umbúða sem framleiddar eru innanlands og fara til útflutnings. Framleiðandi umbúða gerir upp við Skattinn magn umbúða sem gjaldið er lagt á.

Endurgreiðsla úrvinnslugjalds vegna útflutnings

Ef vörur eru fluttar út í umbúðum sem úrvinnslugjald hefur verið greitt af er hægt að sækja um endurgreiðslu til Skattsins. Í umsókninni þarf að koma fram magn vöru og fjárhæð úrvinnslugjalds sem sannanlega hefur verið greitt. Skýrslunni þarf að skila 15 dögum fyrir gjalddaga úrvinnslugjalds. Lágmarksfjárhæð til endurgreiðslu hverju sinni er 10.000 krónur.

Hvernig má lækka upphæð úrvinnslugjalds?

Hægt er að lágmarka úrvinnslugjald með því að minnka magn umbúða utan um vörur. Þannig verður álagning úrvinnslugjalds hvati til að minnka umbúðamagn þar sem framleiðendur/innflytjendur njóta strax ávinnings af minni notkun umbúða. Hjá fyrirtækjum þar sem mikið fellur til af pappa, pappír og plasti er tilvalið að endurskoða kostnað við meðhöndlun þess úrgangs og ræða þau mál við fyrirtæki sem meðhöndla úrgang. Upplýsingar um slíka þjónustuaðila fyrirtæki/þessa þjónustuaðila hér á vefsetrinu.

Sjá nánar um lög og reglur Úrvinnslusjóðs

Eyðublöð Úrvinnslusjóðs