Ökutæki
Skráður eigandi gjaldskylds ökutækis skal á hverju tímabili greiða úrvinnslugjald fyrir hvert gjaldskylt ökutæki sitt. Úrvinnslugjaldið er innheimt með bifreiðagjaldi.
Úrvinnslugjald er innheimt af bifreiðum þó að númer hafi verið lagt inn en ekki gengið frá afskráningu. Ganga þarf frá afskráningu bifreiðar hjá skoðunarstöðvum eða Samgöngustofu til að fá gjaldið fellt niður.
Bifreiðar sem eru undanþegnar bifreiðagjaldi skv. 4.gr. laga um bifreiðagjald eru gjaldskyldar.
Gjaldskylda fellur niður:
- Frá og með upphafi fyrsta gjaldtímabils eftir að greitt hefur verið úrvinnslugjald af ökutækinu í full 15 ár.
- Fyrir bifreiðar sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs.
Skilagjald á ökutæki
Greiða skal eiganda ökutækis skilagjald, krónur 20.000, eftir afhendingu til móttökustöðvar til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar, hafi ökutæki verið afskráð og úrvinnslugjald greitt a.m.k. einu sinni af viðkomandi ökutæki. Ökutæki sem eru skráð fyrir 1980 falla ekki undir kerfið því aldrei hefur verið greitt af þeim úrvinnslugjald. Eigandi getur gefið öðrum aðila umboð til að skila ökutæki og móttaka skilagjaldið.
Ferlið við að skila ökutæki til úrvinnslu er orðið rafrænt og sjálfvirkt að mestu og fer fram á vef https://island.is/ og staðfestist með rafrænum skilríkjum. Allar upplýsingar varðandi greiðslur eftir að ökutækinu hefur verið skilað og það afskráð er einnig að finna þar. Skilagjaldið er greitt til eigenda frá Fjársýslu ríkisins, sem veitir upplýsingar um greiðslur t.d. ef að eigendur telja sig ekki hafa fengið greitt. Ennþá er hægt að taka á móti ökutækjum með eldra fyrirkomulagi og verður svo um nokkurn tíma, meðan unnið er að innleiðingu rafrænna skila.
Nýja ferlið við skil á ökutækjum:
- Eigandi skila ökutæki til móttökustöðvar
- Viðkomandi móttökustöð staðfestir móttöku ökutækisins
- Ökutækið er sjálfkrafa afskráð hjá Samgöngustofu
- Fjársýsla ríkisins endurgreiðir skilagjald til eigenda
Hvert á að skila?
Vinsamlegast leitið upplýsinga hjá viðkomandi sveitarfélagi/móttökustöð eða á https://island.is/skilavottord hvert eigi að fara með ökutækið til að farga því.
Til að fá skilagjald af ökutækjum:
Umboð til að afskrá ökutæki
Umboð til förgunar ökutækis