Ökutæki - Skilagjald
Skilagjald á ökutækjum
Eigandi ökutækis greiðir skilagjald af því. Gjaldið er innheimt með bifreiðagjöldum.
Þessi skylda hvílir á eigendum allra ökutækja, einnig þeirra sem eru undanþegin bifreiðagjöldum samkvæmt 4. gr. laga um bifreiðagjöld.
Gjaldskylda fellur niður frá og með upphafi fyrsta gjaldtímabils eftir að greitt hefur verið skilagjald af ökutækinu í full 15 ár og fyrir bifreiðir sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs.
Reglurnar eru hér.
Skilagjald endurgreitt við úrvinnslu ökutækis
Þegar ökutæki er afskráð og skilað til úrvinnslu er greitt út skilagjald, nú 30.000 kr. Fjársýslan annast greiðsluna fyrir hönd Úrvinnslusjóðs.
Til þess að fá skilagjaldið greitt þarf að fara í gegn um eftirfarandi þrep:
1. Skila ökutæki til móttökustöðvar
2. Sækja um endurgreiðslu á skilagjaldi hér: Skilavottorð - Umsókn um endurgreiðslu á skilagjaldi ökutækja | Ísland.is (island.is)
3. Ef bankareikningur viðtakanda skilagjaldsins er skráður hjá Fjársýslunni ætti skilagjaldið að greiðast út sjálfkrafa innan tveggja daga.
Ökutæki skilað: Ef þú ert í vafa um hvert þú átt að fara með ökutækið er best að spyrjast fyrir í þínu sveitarfélagi. Á island.is er listi yfir móttökuaðila á höfuðborgarsvæðinu og í stærri þéttbýliskjörnum.
Ef upp koma vandamál við afskráninguna er rétt að leita upplýsinga hjá Samgöngustofu.
Greiðsla: Heimilt er að skuldajafna skilagjaldinu við ógreidd gjöld sem fylgja ökutækinu, s.s. bifreiðagjöld, og einnig við ógreiddar skattkröfur. Tilkynning um skuldajöfnun berst í pósthólfið þitt á island.is. Ef þú átt von á greiðslu sem skilar sér ekki, veita innheimtumenn ríkissjóðs allar upplýsingar um skuldastöðu.
Athugið að Úrvinnslusjóður greiðir ekki út skilagjaldið beint og tekur ekki við gögnum um afskráðar bifreiðar. Starfsmenn sjóðsins geta því ekki veitt upplýsingar um ástæður þess að greiðsla berst ekki.
Skilavottorð á pappír: Ef þarf að skila umsókn um skilagjald á pappír, t.d. ef um tvo eigendur er að ræða eða umboð er veitt öðrum til að annast afskráningu, má nálgast skilavottorð á móttökustöðvum.
Umboð til að afskrá ökutæki (eyðublað)
Umboð til förgunar ökutækis (eyðublað)