Yfirlýsing frá stjórn Úrvinnslusjóðs vegna umfjöllunar um laun framkvæmdastjóra.

07. okt. 2022

Vegna umfjöllunar um laun framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs er rétt að fram komi að núverandi stjórn Úrvinnslusjóðs hefur engin afskipti haft af launamálum hans og ákvarðar ekki laun framkvæmdastjórans. Vegna framkomins bréfs frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til stjórnar Úrvinnslusjóðs leitaði stjórnin álits sérfræðings í vinnurétti, Láru V. Júlíusdóttur hrl. Var annars vegar óskað álits á stöðu framkvæmdastjórans í málinu og hins vegar stöðu stjórnar. Álitið er að finna í hjálögðu skjali hér .

Eins og þar kemur fram telur hæstaréttarlögmaðurinn stöðu framkvæmdastjórans allt aðra en þá sem lesa má í umfjöllun í bréfi ráðuneytisins. Þá telur hæstaréttarlögmaðurinn stöðu stjórnar Úrvinnslusjóðs þess eðlis að málið geti ekki talist á hennar ábyrgð. Stjórn Úrvinnslusjóðs fjallaði um málið á tveimur stjórnarfundum og tók á þeim seinni ákvörðun um að senda fjármála- og efnahagsráðuneytinu erindi ásamt fyrirliggjandi gögnum, þ. á m. álit hæstaréttarlögmannsins. Stjórn Úrvinnslusjóðs hefur litið svo á að málið sé í eðlilegum farvegi hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Fjársýslu ríkisins, sem annast greiðslur launa opinberra starfsmanna.