Til upplýsinga frá stjórn Úrvinnslusjóðs

22. nóv. 2021

Undirritun ársreikninga.
Nýverið voru ársreikningar Úrvinnslusjóðs 2017–2020 undirritaðir af stjórn sjóðsins. Ástæðu þess að ársreikningar sjóðsins eftir 2016 höfðu ekki verið undirritaðir fyrr má rekja til gildistöku laga um opinber fjármál en við það tilefni skapaðist lagalegt misræmi við lög um úrvinnslugjald m.t.t. tekna sjóðsins. Af ákvæðum laga um opinber fjármál leiðir að tekjur af úrvinnslugjaldi teljast skatttekjur í eigu ríkissjóðs. Það fyrirkomulag er í andstöðu við ákvæði laga um úrvinnslugjald, sem mæla fyrir um að tekjur af úrvinnslugjaldi skuli renna óskiptar til Úrvinnslusjóðs. Í þessu ljósi taldi stjórn sjóðsins sig ekki geta undirritað ársreikninga enda gæfu þeir hvorki glögga mynd af stöðu né starfsemi sjóðsins. Rétt er að geta þess að fjárlaganefnd Alþingis var upplýst um þessa stöðu https://www.althingi.is/altext/erindi/150/150-47.pdf . Þess skal getið að sú meðferð tekna af úrvinnslugjaldi að færa þær sem tekjur ríkissjóðs, þrátt fyrir að þær séu í sérlögum beinlínis tilgreindar tekjur Úrvinnslusjóðs, skerðir möguleika sjóðsins til að afla og miðla áfram fullnægjandi upplýsingum um starfsemina og er það miður. Hefur stjórn sjóðsins reynt að bregðast við þessu með því að birta skýrslur um starfsemi sjóðsins .

Leitað var álits reikningsskilaráðs ríkisins á hinu lagalega misræmi um tekjur sjóðsins. Niðurstaða reikningsskilaráðs frá desember 2019 var sú að tekjur sjóðsins teldust ótvírætt skatttekjur samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Í kjölfarið átti sér stað umræða í stjórn sjóðsins og við umhverfis- og auðlindaráðuneytið um hvort fyrirkomulagið stæðist skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum, einkum Evrópugerða sem kveða á um skyldu ríkisins til að koma á fót framlengdri framleiðendaábyrgð í ýmsum úrgangsflokkum. Í framhaldinu voru vorið 2021 samþykktar breytingar á lögum um úrvinnslugjald þar sem kveðið er á um að tekjur Úrvinnslusjóðs séu fjárveiting á grundvelli fjárheimilda í lögum sem nemur tekjuáætlun fjárlaga af úrvinnslugjaldi og endurmati á tekjuáætlun úrvinnslugjalds fyrra árs. Í ljósi þessara lagabreytinga, í trausti þess að vandað sé til verka við gerð tekjuáætlunar og endurmat skili raunsannri niðurstöðu hefur stjórnin gengið frá undirritun ársreikninga sjóðsins fyrir árin 2017–2020.

Hringrásarhagkerfi.
Með framangreindri breytingu á lögum um úrvinnslugjald er Úrvinnslusjóði fengið lykilhlutverk í að styðja við myndun hringrásarhagkerfis við meðhöndlun þeirra vöruflokka sem undir sjóðinn heyra. Þessar breytingar á hlutverki Úrvinnslusjóðs koma til fullra framkvæmda 1. janúar 2023 og er nú unnið ötullega að undirbúningi þeirra.

Endurvinnsla plasts.
Að gefnu tilefni er vísað til yfirlýsingar stjórnar frá desember 2020 um úrvinnslu plastumbúða en þar kemur m.a. fram hvernig Úrvinnslusjóður hefur leitast við með hagrænum aðgerðum að auka endurvinnslu plastumbúða.

Úttekt Ríkisendurskoðunar.
Eins og áður hefur komið fram hefur stjórn Úrvinnslusjóðs lýst ánægju með stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda á starfsemi Úrvinnslusjóðs enda væntir stjórnin þess að við það tilefni gefist tækifæri til að koma sjónarmiðum um bætta úrvinnslu úrgangs á framfæri en njóta um leið úttektar óháðs aðila og e.t.v. ábendinga um hvað megi gera betur. Rétt er að taka sérstaklega fram að stjórnarformannsskipti hjá Úrvinnslusjóði eru allsendis ótengd úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi sjóðsins en fráfarandi stjórnarformaður, Laufey Helga Guðmundsdóttir, baðst lausnar að eigin ósk vegna anna við önnur störf.

Að lokum skal bent á að skýrslur um starfsemi Úrvinnslusjóðs er að finna á vef sjóðsins . Um þessar mundir er unnið að gerð ársskýrslu fyrir árið 2020 sem verður birt nú í desember. Á vefnum er einnig að finna svör við algengum spurningum um sjóðinn .