Plastið í Svíþjóð er að litlu leyti frá Íslandi

18. feb. 2022

Allur plastúrgangur, sem nú er á starfssvæði Påryd Bildemontering KB (áður Webbo Sverige KB) í Kalmar í Svíþjóð, er blanda plasts frá Íslandi og Svíþjóð og að mjög litlu leyti frá Íslandi, líklega einungis um 1,5% af um það bil 2.700 tonnum á svæðinu í heild. Það er sameiginlegt mat fulltrúa frá Úrvinnslusjóði, Terru umhverfisþjónustu, Íslenska Gámafélaginu, endurvinnslufyrirtækinu Swerec og flutningafyritækinu JIRAB. Jafnframt voru fulltrúar frá Kalmar kommun og þar á meðal starfandi heilbrigðisfulltrúi sveitarfélagsins sem skoðuðu sameiginlega gleymslusvæðið þann 27. janúar sl.

Tilgangur ferðarinnar var fyrst og fremst sá að skoða og meta magn flokkaðs úrgangs frá Íslandi á staðnum, en einnig og ekki síður sá að ræða við samstarfsaðila til að tryggja eins vel og kostur er að allur plastúrgangur sem sendur er utan frá Íslandi fari ávallt og án óeðlilegra tafa í það ferli sem samið er um hverju sinni, hvort sem er brennslu til orkunýtingar eða annara ásættanlegra nota. Að mati fulltrúa sveitarfélagsins í vettvangsskoðuninni er óumdeilt að útflutningsaðilar plastúrgangsins frá Íslandi til Svíþjóðar fylgdu öllum gildandi reglum þar um. Einnig var staðfest ytra að JIRAB fékk staðfestingu þess hjá heilbrigðisfulltrúa Kalmar Kommun að Webbo Sverige hafði gilt starfsleyfi á þeim tíma þegar plastið var flutt til Påryd. Engu að síður vinnur Úrvinnslusjóður nú að breytingum á skilmálum fyrir þjónustu- og ráðstöfunaraðila sem ætlað er að tryggja enn betur rekjanleika úrgangs frá Íslandi og rétta og tafarlausa ráðstöfun.

Vettvangsskoðun á staðnum
Á vettvangi í Påryd skýrði Ulf Abrahamsson hjá flutningafyrirtækinu JIRAB frá því að 2016 hefði fyrirtækið flutt um 1.500 tonn af plastumbúðum frá Swerec og 1.500 tonn frá Förpacknings og Tidnings Insamlingen, alls um þrjú þúsund tonn, til Webbo Sverige KB í Påryd. Þá upplýsti starfsmaður Påryd Bildemontering á staðnum að fyrirtækið hans hefði þegar flutt í burtu um 500 tonn af plasti utandyra í brennslu til orkunýtingar.

Flokkað og baggað af Swerec
Ljóst er að allur plastúrgangurinn hefur verið tekinn saman og baggaður af Swerec eftir að hafa farið í gegnum flokkunarvélar fyrirtækisins. Í slíku ferli blandast plast saman óháð uppruna þess, í þessu tilfelli plast frá Íslandi og innlent plast frá neytendum í Svíþjóð. Á árinu 2016 meðhöndlaði Swerec í heild um 51 þúsund tonn af plastúrgangi og af þeim komu um 1.500 tonn frá Íslandi eða um 3% af heildarmagni sem Swerec meðhöndlaði á því ári. Um helmingur plastsins í Påryd er frá Swerec og af því má áætla að rétt um 1,5% af því plasti sem er í Påryd sé hægt að rekja til Íslands. Það kemur heim og saman við vettvangsskoðunina á staðnum þar sem mjög lítið fannst af íslensku plasti.

Hendur sveitarfélagsins bundnar
Á fundi sem haldinn var eftir vettvangsskoðunina kom fram að á ýmsu hefur gengið varðandi starfsleyfi Webbo Sverige KB í Påryd þar sem skilyrt var að úrgangurinn (að hámarki 10 þús. tonn) skyldi geymast innanhúss. Brot á því leiddu til starfsleyfismissis 2016 og aftur 2017, skömmu eftir endurnýjun. Í kjölfarið létu forsvarsmenn fyrirtækisins sig hverfa og hafa fulltrúar Kalmar Kommun ekki náð sambandi við þá síðan. Þar sem Webbo Sverige KB er þó enn skráð fyrirtæki og lögmætur eigandi plastsins í Påryd telur sveitarfélagið sér ófært að ráðstafa plastinu án þess að skapa sér skaðabótaskyldu gagnvart eiganda þess. Fulltrúar sveitarfélagsins gera sér hins vegar fyllilega ljóst að það sé hlutverk þess, en ekki annarra, að leysa þetta vandamál og engin áhöld eru um að íslenskir aðilar fylgdu öllum reglum við innflutning plastúrgangsins til Svíþjóðar á sínum tíma.

Undirrituð greinargerð íslensku sendinefndarinnar til Svíþjóðar ásamt myndum hér