Kynningar- og samráðsfundur

12. jún. 2014

Kynningar- og samráðsfundur um raf- og rafeindatækjaúrgang vegna breytinga á lögum. Fundurinn verður haldinn á Grand Hótel, fimmtudaginn 19.júní kl. 10:15. Áætluð fundarlok eru kl. 12:30.

Þann 16. maí sl. var samþykkt á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum. Með lögunum voru gerðar breytingar á fyrirkomulagi við meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs.

Raf- og rafeindatæki verða færð til Úrvinnslusjóðs frá og með 1. janúar 2015 og úrvinnslugjald lagt á tækin. Í lögunum segir að fjárhæð úrvinnslugjalds skuli taka mið af áætlun sjóðsins um þær greiðslur sem bjóða þarf til að ná tölulegum markmiðum fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun, svo og greiðslur vegna flutnings raf- og rafeindatækjaúrgangs innanlands.

Gert er ráð fyrir að  framkvæmd sjóðsins verði með svipuðu móti og gildir fyrir aðra úrgangsflokka sem falla undir lög um úrvinnslugjald.

Að framkvæmdinni koma sveitarfélög og þjónustu- og ráðstöfunaraðilar. Sveitarfélögin sjá um að starfræktar séu söfnunarstöðvar þar sem tekið er við raf- og rafeindatækjaúrgangi. Þjónustuaðilar eru verktakar og gámafyrirtæki sem sjá um söfnun, flutning og meðhöndlun og ráðstöfunaraðilar eru endurvinnslu- eða endurnýtingarfyrirtæki. Þjónustuaðilar verða með samning við Úrvinnslusjóð og ráðstöfunaraðilar samþykktir af sjóðnum.

Útbúnir verða skilmálar  þar sem fram koma kröfur sem gerðar verða til sveitarfélaga og þjónustu- og ráðstöfunaraðila. Í skilmálunum verður m.a. útfærð kostnaðarþátttaka fyrir geymslu raf- og rafeindatækjaúrgangs á söfnunarstöðvum sveitarfélaga og greiðslur til þjónustuaðila fyrir flutning innanlands og ráðstöfun úrgangsins.

Á fundinum verður farið yfir nýsamþykkt lög, kröfur sem gerðar eru til meðhöndlunar á raf- og rafeindatækjaúrgangi, magntölur og uppbyggingu fyrirhugaðra skilmála.

Markmiðið er að kynna ofangreint, ræða og fá gagnlegar ábendingar þannig að framkvæmdin takist sem best.

Fundurinn verður haldinn á Grand Hótel, fimmtudaginn 19. júní kl.10:15 til 12:30. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á netfangið  asa@urvinnslusjodur.is   eigi síðar en 18. júní 

Dagskrá:

1.        Inngangur

  2.       Lög um meðhöndlun úrgangs 55/2003 með síðari breytingum

          Breytt fyrirkomulag við meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs

          Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

  3.       Meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs

          Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun

  4.        Framkvæmd Úrvinnslusjóðs

           Uppbygging skilmála, magntölur o.fl.

           Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri hjá Úrvinnslusjóði