Endurvinnsla eykst á milli ára

14. okt. 2021

Mikil umræða á sér stöðugt stað um flokkun og endurvinnslu hér á landi og er það vel. Nú að nýloknum plastlausum september er gott að staldra við og skoða hvað við erum að gera í endurvinnslumálum hér á landi. Hér verður stuttlega gerð grein fyrir þremur úrgangsstraumum af vörum sem bera úrvinnslugjald og hve mikið af úrganginum er endurunnið.

Pappi og pappír.

Pappír og sléttum pappa er safnað saman annars vegar og bylgjupappa hins vegar. Pappír og pappi eru umbúðir sem lagt er á úrvinnslugjald í tolli eða við framleiðslu hér innanlands. Þegar pappír og pappi er orðinn að úrgangi er honum safnað saman, hann baggaður og sendur erlendis til endurvinnslu. Árið 2020, voru send 14.509 tonn til Peute Recycling í Hollandi, 4.231 tonn til Stena Reycling AB í Svíþjóð og 620 tonn til Waste Paper Trade C.V í Hollandi og 16 tonn annað. Peute er bæði endurvinnsluaðili og miðlari með flokkað efni. Samtals voru 19.377 tonn af pappír og pappa send í endurvinnslu árið 2020. Árið 2019 voru 18.334 þúsund tonn send erlendis í endurvinnslu. Aðeins hefur dregið úr magni pappírs og pappa sem úrvinnslugjald er lagt á, en árið 2020 var lagt úrvinnslugjald á 19.471 tonn í samanburði við 21.026 tonn árið á undan. Hlutfallslega var því meira safnað saman af pappír og pappa árið 2020 en árið 2019.

Plast

Úrvinnslugjald er lagt á plastumbúðir og heyrúlluplast. Einnota drykkjarumbúðir úr plasti falla hins vegar undir skilagjaldskerfið, en við skoðum þær umbúðir líka í þessum pistli. Sama ferli er hér og varðandi pappír og pappann að þegar búið er að safna saman plastúrganginum er hann annars vegar sendur erlendis til endurvinnslu og annarrar úrvinnslu, en einnig er plast endurunnið hér innanlands hjá PNR í Hveragerði. Alls voru 1447 tonn af plasti sem safnaðist inn vegna einnota drykkjarvöruumbúða endurunnið hjá Wellman Recycling í Hollandi og Morssinkof Plastics í Þýskalandi. Auk þess plasts sem var endurunnið í Hveragerði og endurunnu einnota drykkjarvöruumbúðirnar, voru plastumbúðir og heyrúlluplast sent erlendis til Stena Recycling AB í Svíþjóð, Peute Recycling í Hollandi, PreZero í Þýskalandi og Swerec í Svíþjóð. Alls voru endurunnin 4.447 tonn af plasti árið 2020, sem svaraði til 55 % af því plasti sem var ráðstafað (skilagj. meðtalið) en 4.200 tonn árið 2019 sem svaraði til 48% af því plasti sem var sent til ráðstöfunar það árið. Sá hluti sem ekki var endurunninn fór í orkunýtingu eða förgun, en hluti af því sem safnað er með plastinu er jarðvegur, hey, vatn og ýmis óhreinindi.

Hjólbarðar

Úrvinnslugjald er einnig lagt á hjólbarða. Lengi vel gekk erfiðlega að finna endurvinnslufarveg fyrir hjólbarða. Síðastliðin tvö ár hefur megnið af þeim hjólbörðum sem ráðstafað er gegnum Úrvinnslusjóð farið í endurvinnslu. Hjólbarðarnir eru sendir til Hollands til fyrirtækis sem heitir Granuband B.V. og fóru 4.801 tonn þangað árið 2020 en 381 tonn af hjólbörðum var kurlað og endurnýtt á urðunarstað. Alls voru 3.693 tonn send til Granuband B.V. í endurvinnslu árið 2019 á meðan 2.076 tonn voru endurnýtt á urðunarstað. Hér hefur orðið kúvending í átt að aukinni endurvinnslu á hjólbörðum.