Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt á starfsemi Úrvinnslusjóðs

Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt á starfsemi Úrvinnslusjóðs sem byggði á beiðni Alþingis frá 31. maí 2021. Fulltrúar embættisins kynntu niðurstöður úttektarinnar á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fyrr í dag.

29. ágú. 2022

 

Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Úrvinnslusjóði birt

 

Þann 29. ágúst birti Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt á Úrvinnslusjóði. Til grundvallar stjórnsýsluúttektinni lá beiðni Alþingis um skýrslu ríkisendurskoðanda frá 31. maí 2021, sbr. þskj. 1528 –815. mál.  https://www.althingi.is/altext/151/s/1528.htmlÍ framangreindri þingsályktunartillögu er nánar gerð grein fyrir þeim þáttum sem Ríkisendurskoðun skyldi skoða.
Auk þeirra atriða sem fram komu í þingsályktuninni taldi Ríkisendurskoðun ástæðu til að skoða meðferð plastúrgangs sérstaklega. Þá taldi Ríkisendurskoðun rétt að kanna hvernig Úrvinnslusjóði miðar við að ná tölulegum markmiðum um söfnun og endurvinnslu eða endurnýtingu úrgangs.

 

Niðurstöður Ríkisendurskoðunar
Í úttekt Ríkisendurskoðunar eru lagðar fram tillögur til úrbóta í sex liðum.

 

  1. Styrkja þarf starfsemi Úrvinnslusjóðs, fjölga starfsfólki og styrkja þekkingu er lýtur að verkefnum sjóðsins. Skrá þarf verkferla, koma á innra eftirliti og uppfæra skilmála. Þá þarf að bæta upplýsingagjöf til almennings, stjórnar og hagsmunaaðila.
  2. Bæta þarf eftirlit með innheimtu úrvinnslugjalds, sem er skattur, og koma á reglubundnu samráði milli Skattsins og Úrvinnslusjóðs.
  3. Endurskoða þarf tollskrárnúmer með tilliti til úrvinnslugjalda. Þá þarf Úrvinnslusjóður að beita sér fyrir uppfærslu viðauka við lög um úrvinnslugjald samhliða breytingum á tollskrá.
  4. Koma þarf á skilvirkum leiðum til að sannreyna raunveruleg afdrif úrgangs að því marki sem unnt er. Setja þarf fram skýra skilmála um hvaða gagna sé krafist til staðfestingar og hvernig vottun þeirra skuli háttað. Ítarlegri gögn stuðla einnig að því að upplýsingar um úrgangstölfræði verði áreiðanlegri.
  5. Stuðla þarf að aukinni endurvinnslu innanlands, t.d. með hækkun endurgjalda. Sú tilhögun getur þó talist ríkisstyrkur skv. EES-samningnum og því þarf umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti að tilkynna slíkt með formlegum hætti og gera viðeigandi lagabreytingar.
  6. Efla þarf stuðning ráðuneytis þegar upp koma álitamál í starfsemi Úrvinnslusjóðs, m.a. vegna innleiðingu nýrra laga.

Viðbrögð Úrvinnslusjóðs
Í skýrslunni er að finna tillögur og ábendingar til Úrvinnslusjóðs sem munu styrkja og efla starfsemi sjóðsins. Stjórn Úrvinnslusjóðs fagnar framkomnum ábendingum og athugasemdum í skýrslu Ríkisendurskoðunar og mun sjóðurinn að sjálfsögðu leggja sig fram að bregðast við þeim ábendingum sem fjallað er um í skýrslunni. Úrvinnslusjóður hefur yfirfarið ábendingar og athugasemdir Ríkisendurskoðunar og sett fram áætlun til úrbóta. https://www.urvinnslusjodur.is/um-urvinnslusjod/verkefnaaaetlun-vegna-stjornsysluutektar

 

Styrking á starfsemi sjóðsins er þegar hafin. Vinna við þarfagreiningu er á lokastigi, lagður hefur verið grunnur að fjölgun starfsfólks, skýrari afmörkun verksviða og gerð og skráningu verkferla, þ.m.t. styrkingu á innra eftirliti. Unnið er að uppfærslu á skilmálum, hönnun á nýju mála- og tölvukerfi ásamt stafrænni þróun sem auka á gagnsæi í starfsemi sjóðsins. Úrvinnslusjóður mun leita til Skattsins um útfærslu á reglubundnu samráði um eftirlit með innheimtu úrvinnslugjalds ásamt endurskoðun tollskrárnúmera með tilliti til úrvinnslugjalda. Úrvinnslusjóður hefur þegar kallað eftir rekjanleikaskýrslum fyrir ráðstöfun tiltekinna vöruflokka þar sem úrgangurinn fer frá miðlara eða flokkunarfyrirtæki til þriðja aðila til endanlegrar ráðstöfunar. Þá hefur verið ákveðið að gera skriflega samninga við ráðstöfunaraðila varðandi rekjanleikaskýrslur auk skilyrða um endanlega ráðstöfun og stefnt að því að koma slíkum samningum á sem fyrst. Þessi vinna er nú þegar hafin fyrir plastúrgang og verða aðrir vöruflokkar teknir fyrir í framhaldinu.

Þessu til viðbótar hefur stjórn og starfsfólk Úrvinnslusjóðs unnið að undirbúningi vegna lagabreytinga til innleiðingar á hringrásarhagkerfinu sem taka gildi um næstu áramót.

Að öðru leyti telur Úrvinnslusjóður ástæðu til að draga hér á eftir fram einstaka liði úr skýrslu Ríkisendurskoðunar til frekari skýringar, og ekki er fjallað sérstaklega um í samandregnum tillögum í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Ársskýrslur Úrvinnslusjóðs
Þegar beiðni Alþingis um úttekt Ríkisendurskoðunar var samþykkt höfðu hvorki ársskýrslur né ársreikningar Úrvinnslusjóðs verið birtir opinberlega frá árinu 2016. Starfsskýrsla 2017–20 hafði þó verið birt á vefsvæði sjóðsins stuttu áður. Ástæður þessa, og eru tilgreindar í skýrslu Ríkisendurskoðunar, má rekja til innleiðingar laga um opinber fjármál sem fól í sér afnám markaðra tekna. Þær breytingar leiddu til þess að tekjur af úrvinnslugjaldi, sem fram að því höfðu í samræmi við lög um úrvinnslugjald runnið beint til sjóðsins, runnu nú í ríkissjóð sem síðan veitti sjóðnum sams konar fjárheimild í fjárlögum. Lögum um úrvinnslugjald var ekki breytt samhliða gildistöku laga um opinber fjármál og því skapaðist ósamræmi um meðferð úrvinnslugjalds. Stjórn Úrvinnslusjóðs taldi sig ekki geta samþykkt ársreikninga sjóðsins þar sem framsetning þeirra stangaðist á við lög um úrvinnslugjald. Við samþykkt laga nr. 103/2021. og fólu í sér breytingu á lögum um úrvinnslugjald, taldi stjórn sjóðsins að brugðist hefði verið við framangreindu ósamræmi. Í lögunum er áskilið að tekjur Úrvinnslusjóðs skulu vera fjárveiting á grundvelli fjárheimilda sem nemur tekjuáætlun fjárlaga af úrvinnslugjaldi og endurmati á tekjuáætlun úrvinnslugjalds fyrra árs. Í framhaldi staðfesti stjórn Úrvinnslusjóðs ársreikninga og starfsskýrslur sjóðsins og voru þær í kjölfarið birtar.

 

Greiðslur úr Úrvinnslusjóði
Greiðslur úr Úrvinnslusjóði námu um 8,5 ma.kr. á árunum 2016–20. Skráðir þjónustuaðilar Úrvinnslusjóðs fá greiðslur í takt við umsvif.

 

 

 

Meðhöndlun úrgangs, afdrif og eftirlit.
Eftirlit Úrvinnslusjóðs með þjónustuaðilum felst í yfirferð á skilagreinum og gögnum sem þurfa að berast með reikningum til sjóðsins. Sjóðurinn gerir kröfu um að þjónustuaðilar hafi gild starfsleyfi til meðhöndlunar úrgangs og treystir á að útgefendur starfsleyfa fylgist með að starfsemi sé í samræmi við lög og reglur. Þjónustuaðilar gera samning við ráðstöfunaraðila um endanlega ráðstöfun úrgangsins og hefur Úrvinnslusjóður takmarkaða aðkomu að slíkum samningum. Úrvinnslusjóður skilgreinir ráðstöfunarleiðir í skilmálum sínum og setur fram gjaldskrá byggða á þeim. Þannig er stuðlað að því að sem hæst endurgjald greitt fyrir endurvinnslu en lægst fyrir förgun. Skilyrði eru sett um að ráðstöfun uppfylli viðurkenndar kröfur settar af yfirvöldum þess lands þar sem endanleg ráðstöfun fer fram. Mikilvægt er að gagnsæi ríki varðandi forsendur endurgjalds vegna ráðstöfunar og flutningsjöfnunar. Ný ákvæði laga um úrvinnslugjald sem tóku gildi í júní 2021 auka skyldur Úrvinnslusjóðs að tryggja viðeigandi ráðstöfun úrgangs áður en greiðslur til samningsaðila eru inntar af hendi. Unnið er að endurskoðun skilmála og samninga við þjónustuaðila og ráðstöfunaraðila svo draga megi úr hættu á að frávik komi upp í framtíðinni.

Aukin innlend úrvinnsla

Að mati Ríkisendurskoðunar mun aukin innlend endurvinnsla þjóna markmiðum um hringrásarhagkerfi og einfalda eftirlit Úrvinnslusjóðs með ráðstöfun. Ríkisendurskoðun telur að endurskoða þurfi fyrirkomulag flutningsjöfnunar og auka sveigjanleika í fyrirkomulagi sem mætir aðstæðum þegar um innlenda úrvinnslu er að ræða. Stjórn Úrvinnslusjóðs samþykkti í júlí sl. breytingar á fyrirkomulagi flutningsjöfnunar. Í lögfræðiáliti unnið fyrir Úrvinnslusjóð kemur fram að hærri endurgreiðslur til innlendra þjónustu- og ráðstöfunaraðila en erlendra teljist ríkisstyrkur. Ef auka á innlenda úrvinnslu með hærra endurgjaldi til innlendra aðila eða öðrum ráðstöfunum þarf að gera viðeigandi breytingar á lögum og tilkynna fyrirkomulagið til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Markmið og árangur

Umbúðir úr pappa, pappír og plasti, rafhlöður og rafgeymar og raf- og rafeindatæki eru þeir vöruflokkar sem hafa skilgreind lágmarksmarkmið um söfnun og endurvinnslu úrgangs og Úrvinnslusjóður ber ábyrgð á að séu uppfyllt. Frá og með 1. janúar 2023 bætast markmið fyrir úr sér gengin ökutæki í umsjón Úrvinnslusjóðs. Um aðra úrgangsflokka Úrvinnslusjóðs gilda almenn ákvæði um forgangsröðun og meðhöndlun úrgangs. Vel hefur gengið að ná markmiðum varðandi umbúðir úr pappa og pappír, plasti ásamt markmiðum fyrir rafhlöður og rafgeyma. Töluvert er í að markmiðum um söfnun, endurvinnslu- og endurnýtingarhlutfall raf- og rafeindatækja verði náð. Bæta þarf tölfræði um úrgang og meðhöndlun hans og eru aðgerðir sjóðsins í stafrænni þróun, tölvumálum og eftirliti með afdrifum úrgangs ætlað að bregðast við þeim ábendingum.

Veiðarfærasamningur

Heimilt er að gera sérstaka samninga um undanþágur frá úrvinnslugjaldi gegn því að atvinnurekendur eða samtök þeirra annist meðhöndlun og ráðstöfun viðkomandi úrgangsflokks. Samningur fyrir veiðarfæri úr gerviefnum hefur verið í gildi frá árinu 2005. Nýr veiðarfærasamningur var gerður síðari hluta árs 2021 en hefur enn ekki hlotið staðfestingu ráðherra. 

Skýrsla Ríkisendurskoðunar úttekt á Úrvinnslusjóði

Ríkisendurskoðun fréttir stjórnsýsluúttekt