Starfsemi og hlutverk

Úrvinnslusjóður sér um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess. Hann skal með hagrænum hvötum koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem er tilkominn vegna vara sem falla undir lög um Úrvinnslusjóð.

Úrvinnslusjóður á að leitast við að skapa sem hagkvæmust skilyrði til úrvinnslu úrgangs og semja við aðila um úrvinnslu úrgangs á grundvelli útboða eða verksamninga eftir því sem við á.

Ef gjaldskyld vara eða úrgangur af henni er sannanlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi skal Úrvinnslusjóður hlutast til um að endurgreiða útflytjanda úrvinnslugjaldið samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð. Þá er Úrvinnslusjóði heimilt að semja við rekstraraðila um endurgreiðslu úrvinnslugjalds vegna endurnýtingar á úrgangi rekstraraðila samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð.

Úrvinnslusjóður skal ár hvert gera skýrslu um innheimtu og ráðstöfun úrvinnslugjalds eftir uppgjörsflokkum, svo og um magn og skilahlutfall gjaldskyldrar vöru og úrvinnslu hennar. Auk þess geri Úrvinnslusjóður ár hvert fjárhagsáætlun fyrir næsta ár þar á eftir með hliðsjón af áætlun um magn gjaldskyldrar vöru á markaði, flokkaðs úrgangs sem safnast og kostnaði við úrvinnslu hans á grundvelli útreikninga, útboða og verksamninga.