Veiðarfæri

Veiðarfæri úr gerviefnum

Landssamband íslenskra útvegsmanna annast, samkvæmt samningi milli sín og Úrvinnslusjóðs, úrvinnslu úrgangs vegna veiðarfæra úr gerviefnum.  Um leið er nýtt heimild til undanþágu á úrvinnslugjaldi á veiðarfærum úr gerviefnum, sbr. lög um úrvinnslugjald.

Markmið samningsins er að koma í veg fyrir mengun af völdum úrgangsveiðarfæra úr gerviefnum. Það er gert með því að leita leiða til að auka skil, draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar, örva og hvetja til endurnýtingar þar sem það er hagkvæmt.

Áætlað er að veiðarfæraúrgangur nemi allt að 1.100 tonnum á ári.

Skilyrði um veiðarfæraúrgang 

Veiðarfæraúrgangurinn skal vera:

  • Þurr (rakainnihald að hámarki 6%).
  • Flokkaður eftir veiðarfærategund. 
  • Laus við alla aðskotahluti, aðskotaefni og óhreinindi s.s. fisk, sand, sjávargróður og olíu.
  • Laus við alla aukahluti, s.s. blý, gúmmí, flot, keðjur og víra.

Panta skal móttöku með a.m.k. 24 klst fyrirvara ef skila á meira magni en sem nemur 1 tonni, annars með a.m.k. 4 klst fyrirvara.

Við pöntun skal tilgreina áætlað magn og um hvers konar veiðarfæraúrgang er að ræða. 

Við móttöku skulu móttökuaðili og úrgangshafi eða fulltrúi hans fylla út móttökuskýrslu þar sem fram koma upplýsingar um magn, uppruna og gerð veiðarfæraúrgangs. Báðir aðilar undirrita skýrsluna til staðfestingar og fær úrgangshafi afrit af henni. Leiki vafi á að veiðarfæraúrgangurinn uppfylli skilyrði til móttöku, þ.e. um rakainnihald, flokkun, aðskotahluti og aðskotaefni, getur móttökuaðili hafnað móttöku eða krafið úrgangshafa um greiðslu til að standa straum af kostnaði við nauðsynlega meðhöndlun til að gera úrganginn endurnýtanlegan.

Að uppfylltum settum skilyrðum geta erlendir aðilar eða umboðsmenn þeirra skilað veiðarfæraúrgangi úr gerviefnum frá erlendum skipum til móttökustöðvar gegn gjaldi.