Önnur spilliefni


Sjá nánar um fjárhæðir úrvinnslugjalds á spilliefni í lögum um úrvinnslugjald

Framköllunarefni:
Í þessum vöruflokki eru kemísk efni sem notuð eru í ljósmynda- og prentiðnaði en þau tilheyra ýmsum efnaflokkum, svo sem framköllurum, festivökvum, bleikiefnum, vætiefnum og fleirum. Þau hafa það sameiginlegt að vera notuð í leystu eða fljótandi formi og falla til sem slík eftir notkun.

Úrvinnslugjald er lagt á hvert kg og er mismunandi eftir styrk lausnarinnar.

Kvikasilfursvörur:
Úrvinnslugjald er lagt á hreint kvikasilfur og silfuramalgam til tannfyllinga.

Kælimiðlar:
Úrvinnslugjald er ákveðin upphæð á hvert kíló kælimiðils.

Lífræn leysiefni:
Undir þennan vöruflokk falla öll lífræn leysiefni sem verða að spilliefnum og innihalda halógena eða falla undir reglur um efni sem eyða ósonlaginu. Í þessum vöruflokki er því að finna kolvatnsefni, aldehýð og blöndur leysiefna. Auk þess falla kolvatnsefni unnin úr jarðolíu undir þennan vöruflokk, þar með talið lakkbensín (e. white spirit), sem er mestur hluti af innflutningi efna í þessum vöruflokki.

Lífræn leysiefni, klórbundin efni og önnur efni:
Lífræn leysiefni sem innihalda ekki halógena né falla undir reglur um efni sem eyða ósonlaginu.

Halógeneruð efnasambönd:
Halógeneruð efnasambönd eru lífræn leysiefni sem innihalda halógena og falla ekki undir reglur um efni sem eyða ósonlaginu. Efnin eru einkum notuð sem hreinsiefni í efnalaugum og til að leysa upp lakk og málningu.

Ísósýanöt og pólyúretön:
Í þessum vöruflokki eru lífræn efnasambönd sem innihalda hvarfgjarna ísósýanat-hópa. Eftir fullkomið efnahvarf við pólýól eða aðra hvarfgjarna efnahópa er ísósýanatið óvirkt og telst úrgangur af því tagi ekki lengur til spilliefna.

Varnarefni:
Undir þennan vöruflokk falla varnarefni sem einkum eru skordýra- og illgresiseyðar ásamt fúavarnarefnum sem notuð eru til að gegnverja (impregnera) við.

Þetta eru efni til varnar gegn eða útrýmingar á skordýrum, nagdýrum, sveppum og illgresi, efni til að hindra spírun og efni til að stjórna plöntuvexti, sótthreinsandi efni og áþekkar vörur í formi eða umbúðum til smásölu eða sem blöndur eða hlutir (t.d. brennisteinsunnin bönd, kveikir og kerti og flugnaveiðarar.

Úrvinnslugjald er lagt á hvert kg varnarefna.Senda grein