Hugmyndafræði og verklag

Hráefni og orka til vöruframleiðslu eru oft takmarkaðar auðlindir sem ber að fara eins sparlega með og kostur er. 

Við öflun hráefna og orku er oft gengið á náttúruleg gæði og sama gildir um úrgang sem verður til við vörunotkun og þegar vörur hafa þjónað tilgangi sínum.

Hin síðari ár hefur verið lögð æ meiri áhersla á að vöruhringrásin sé eins lokuð og kostur er og að notkun hráefnis og orku sé í  lágmarki auk þess sem minnst falli úr hringrásinni í formi úrgangs sem verður að farga.

Úrvinnslusjóður vinnur að því að sem minnst falli úr vöruhringrásinni í formi úrgangs sem þarf að farga. Hann reynir með hagrænum hvötum að stuðla að sem mestri endurnýtingu og endurvinnslu.

Verklag

Úrvinnslugjald er notað til að greiða fyrir meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöðvum, flutning, endurnýtingu, endurvinnslu eða förgun með eða án skilagjalds. Samið er um verkþætti á grundvelli útboða eða verksamninga.

Söfnunarstöð er staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer úrgangurinn til endurnotkunar eða er fluttur til móttökustöðva.

Móttökustöð er staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til geymslu til lengri tíma eða skemmri tíma, til umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Þaðan fer úrgangurinn til förgunar, endurnýtingar, endurnotkunar eða honum er fargað á staðnum.